Hausmynd

Upplýsingar liggja fyrir um tvo þingmenn, sem heimilað var að hlera

Föstudagur, 5. ágúst 2016

Á mbl.is, netútgáfu Morgunblaðsins, er sagt frá því, að Ólöf Nordal,innanríkisráðherra, hafi birt svar við fyrirspurn frá Össuri Skarphéðinssyni, alþingismanni Samfylkingar, um veittar heimildir til símahlerana hjá alþingismönnum á árunum 1949-1968 vegna ýmissa atburða, sem tengdust Atlantshafsbandalaginu. Jafnframt er tekið fram, að ekki sé tilgreint um hvaða þingmenn sé að ræða.

Af þessu tilefni er rétt að taka fram, að í bók minni Í köldu stríði- Barátta og vinátta á átakatímum, segi ég frá tveimur þeirra þingmanna, sem við sögu komu, þ.e. Finnboga Rúti Valdimarssyni, alþingismanni Sameiningarflokks alþýðu-Sósíalistaflokks og síðar Alþýðubandalags og Ragnari Arnalds, þingmanni Alþýðubandalags. Í bókinni segir á bls. 104:

"Meðal þeirra, sem fengu bréf frá Þjóðskjalasafni voru Sigrún, eiginkona höfundar þessarar bókar (innskot: sem nú er látin), og systir hennar Guðrún, einu eftirlifandi börn Finnboga Rúts Valdimarssonar.

Í bréfi því sem kona mín fékk frá Þjóðskjalasafni Íslands, hinn 17. desember árið 2007 og fjallar um "uplýsingar í öryggismálasafni Þjóðskjalasafns" segir:

"Komið hefur í ljós að upplýsingar um föður yðar, Finnboga R. Valdimarsson, er að finna í gögnum öryggismálasafns. Við nána skoðun á þeim skjölum, sem varða dómsúrskurði er veittu stjórnvöldum heimildir til símahlerana á tímabilinu 1949-1968, er ljóst að 2. maí 1951 var veitt heimild til að hlera símanúmerið 4904, sem skráð var á föður yðar."

Dagsetningin vekur athygli. Heimild til hlerunar var veitt fimm dögum áður en bandaríska varnarliðið kom hingað til lands, sem var 7. maí 1951. Það bendir til að slíkar heimildir hafi verið veittar vegna grunsemda um að viðkomandi einstaklingar gætu gripið til aðgerða, sem ógnuðu öryggi ríkisins en ekki vegna þess að þeir hafi þá þegar verið búnir að gefa tilefni til þess, nema þá með málflutningi sínum.

Á milli okkar Finnboga Rúts fóru samtöl um símahleranir."

Í bók þessari er einnig vitnað til síðasta Reykjavíkurbréfs, sem ég skrifaði í Morgunblaðið og birtist 1. júní 2008 þar sem fjallað var um símahleranir. Þar sagði m.a. á bls. 103:

"Þeir Ólafur Thors og Einar Olgeirsson voru einkavinir. Bjarni Benediktsson og Finnbogi Rútur voru einkavinir frá æskudögum. Einn þeirra, sem urðu að þola símahleranir var Ragnar Arnalds, þá alþingismaður og formaður Alþýðubandalags. Svo vill til að á milli hans og núverandi ritstjóra Morgunblaðsins er til staðar vinátta frá æskudögum, sem bendir þá til að hinn síðarnefndi hafi orðið að þola að samtöl hans við Ragnar hafi verið hleruð!"

Rétt er að taka fram, að þegar kona mín heitin fékk umrætt bréf í desember 2007 hafði ég samband við Þjóðskjalasafn og spurðist fyrir um hvort til væru útskriftir af hleruðum símtölum Finnboga Rúts. Svo reyndist ekki vera.

Samkvæmt þessu liggja fyrir opinberlega upplýsingar um nöfn tveggja þeirra þingmanna, sem innanríkisráðherra upplýsir nú að heimild hafi verið veitt til að hlera.

 

 

 

"


Úr ýmsum áttum

Má ekki hagræða í opinberum rekstri?

Það er skrýtið að Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra, skuli þurfa að verja hendur sínar vegna viðleitni til þess að hagræða í þeim opinbera rekstri, sem undir ráðherrann heyrir.

Það er ekki oft sem ráðherrar sýna slíka framtakssemi!

Lesa meira

5071 innlit í síðustu viku

Innlit á þessa síðu vikuna 11. febrúar til 17. febrúar voru 5071 skv. mælingum Google.

München: Andrúmsloftið eins og í jarðarför

Evrópuútgáfa bandaríska vefritsins politico, lýsir andrúmsloftinu á öryggismálaráðstefnu Evrópu, sem hófst í München í fyrradag á þann veg að það hafi verið eins og við jarðarför.

Skoðanamunur og skoðanaskipti talsmanna Evrópuríkja og

Lesa meira

4078 innlit í síðustu viku

Innlit á þessa síðu vikuna 4. febrúar til 10. febrúar voru 4078 skv. mælingum Google.