Stundum er sagt að ástand af því tagi, sem nú ríkir í heiminum knýi fram tímabærar breytingar. Nú má vera að það sé að gerast hér.
Fyrir rúmum tveimur áratugum fór Morgunblaðið í ritstjórnargreinum að vekja athygli á því, að það fyrirkomulag að atvinnurekendur og verkalýðsfélög tilnefndu af sinni hálfu til helminga fulltrúa í stjórnir lífeyrissjóða væri úrelt.
Sjóðfélagar í lífeyrissjóðunum, eigendur þeirra fjármuna, sem í þeim eru, ættu að kjósa í kosningum í hverjum sjóði fulltrúa í stjórnir sjóðanna.
Þessum hugmyndum var illa tekið og sérstaka athygli vakti, að verkalýðshreyfingin sýndi þeim engan áhuga.
Á mbl.is, netútgáfu Morgunblaðsins í dag er samtal við Kristján Þórð Snæbjörnsson, formann Rafiðnaðarsambandsins og 1. varaforseta ASÍ, þar sem hann segir:
"Það er auðvitað þannig, að launafólk á að stýra lífeyrissjóðum að öllu leyti, nú er kominn tími til að við náum tökum á okkar eignum".
Þetta er rétt og þessum ummælum ber að fagna. Væntanlega mun ASÍ nú fylgja þeim eftir og eðlilegt að lög verði sett á Alþingi þess efnis. Ef rétt er munað lýst einn af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins frá fyrri tíð sömu sjónarmiðum. Núverandi þingmenn flokksins ættu að kynna sér sjónarmið Péturs Blöndals um þetta efni.
Og jafnframt er rétt að minna á að lífeyrissjóðir eiga nú ráðandi hluti í flestum stærstu fyrirtækjum landsins.
Er ekki kominn tími til að þess sjáist merki?
Þeir sem kunna að hafa eitthvað við það að athuga ættu að lesa bók Eyjólfs Konráðs Jónssonar, ritstjóra Morgunblaðsins á sínum tíma og síðar alþingismanns Sjálfstæðisflokks, sem heitir Alþýða og athafnalíf.
Hún kom út hjá Helgafelli 1968 og fjallar um almenningshlutafélög. Það var fyrir tíma lífeyrissjóðanna eins og við þekkjum þá nú og eignaraðildar þeirra að stórum fyrirtækjum.
En í grundvallaratriðum er hugmyndin sú sama, þótt formið að eignaraðild sé annað en Eykon fjallar um í bók sinni.
Innlit á þessa síðu vikuna 10. janúar til 16. janúar voru 4433 skv. mælingum Google.
Innlit á þessa síðu vikuna 3. janúar til 9. janúar voru 4886 skv. mælingum Google.
Innlit á þessa síðu vikuna 27. desember til 2. janúar voru 5133 skv. mælingum Google.
Innlit á þessa síðu vikuna 20. desember til 26.desember voru 3873 skv. mælingum Google.