Það eru átök í aðsigi í flestum stjórnmálaflokkum vegna þingkosninganna í haust. Þau eru ýmist byrjuð eða fara að byrja og snúast um framboðslista þeirra.
Þessi átök fara fram fyrir opnum tjöldum í þeim flokkum, sem efna til prófkjöra vegna uppstillinga eins og t.d. í Sjálfstæðisflokknum, þar sem flest prófkjör fara væntanlega fram í júní en á bak við lokaðar dyr þar sem verkefnið er uppstillinganefnda eins og t.d. í Samfylkingunni eins og sjá hefur mátt af fréttum um uppstillingu þess flokks í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur.
Gera má ráð fyrir harðri baráttu í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmunum um efstu sæti listannna svo og í Suðurkjördæmi og að hluta til í Suðvesturkjördæmi. Ástæðan er sú, að þeir sem skipa efstu sætin í þessum kjördæmum hafa meiri möguleika en aðrir á ráðherraembættum.
Átökum af þessu tagi fylgir óróleiki, sögusagnir og í sumum tilvikum illt umtal sem er fylgifiskur pólitískra átaka.
Þegar kemur fram í júlí taka svo umræður um málefni við. Nú þegar má heyra áhyggjur af áhrifum tveggja mála á kosningabaráttuna. Annars vegar af Samherjamálinu svonefnda verði rannsókn þess komin á lokastig og hins vegar af sölu á hluta af hlut ríkisins í Íslandsbanka, sem tengjast söluverði á þeim hlut.
En svo má vel vera, að kosningabaráttan muni einkennast af "uppvakningi" frá því fyrir 65 árum, þegar kosningabaráttan 1956 mótaðist af viðleitni vinstri flokkanna til að útiloka Sjálfstæðisflokkinn frá landstjórninni - og kjörorðið á götuhornum var: "Allt er betra en íhaldið".
Innlit á þessa síðu vikuna 17. janúar til 23. janúar voru 4147 skv. mælingum Google.
Innlit á þessa síðu vikuna 10. janúar til 16. janúar voru 4433 skv. mælingum Google.
Innlit á þessa síðu vikuna 3. janúar til 9. janúar voru 4886 skv. mælingum Google.
Innlit á þessa síðu vikuna 27. desember til 2. janúar voru 5133 skv. mælingum Google.