Hausmynd

Darkest Hour: Er kvikmyndin sögulega "rétt"?

Mánudagur, 25. júní 2018

Kvikmyndin Darkest Hour, sem fjallar um takmarkað tímabil í ævi Winston S. Churchill, þegar hann tók við embætti forsætisráðherra Breta í stríðsbyrjun er áhrifamikil, en er hún sögulega "rétt"? 

Og er eitthvað til sem getur kallast sögulega "rétt"?

Segja má að friðþægingarstefna Neville Chamberlain sé grunnþáttur myndarinnar og þar fylgja kvikmyndagerðarmenn viðtekinni skoðun um þátt hans í þeim atburðum.

Hins vegar er til önnur túlkun á afstöðu Chamberlain á síðustu árunum fyrir stríð. Hún birtist í bók um Chamberlain eftir ungan og upprennandi forystumann í Íhaldsflokknum, Ian McLeod, (sem dó fyrir aldur fram) og út kom fyrir tæplega 60 árum.

Í þeirri bók heldur McLeod því fram, að Chamberlain hafi með friðþægingarpólitík sinni og Munchenar-samkomulaginu fyrst og fremst verið að vinna tíma fyrir Breta til að hervæðast og tekizt það að verulegu leyti.

Þessari bók var misjafnlega tekið og jafnvel illa en það breytir ekki því, að hún setur fram áhugaverða túlkun á stefnu Chamberlain, sem ekki er hægt að ýta út af borðinu án umhugsunar og umræðu.

Svo er það annað mál, hvers vegna henni var svo illa tekið. Hún hentaði alla vega ekki pólitískum hagsmunum áhrifamanna í Íhaldsflokknum á þeim tíma.

Það er deilt um, hvort eitt atriði í myndinni hafi yfirleitt átt sér stað, það er þegar Churchill fór í einu ferð ævi sinnar með "underground", en sú ferð er túlkuð, sem leið hans til þess að komast í samband við skoðanir brezks almennings á þeim tíma.

Hvort sem þetta atriði er rétt eða "skáldaleyfi" er þetta forvitnileg aðferð fyrir stjórnmálamann til að komast í "jarðsamband" en túlkun myndarinnar er sú, að þar hafi ræðan mikla -...We shall fight them on the beaches...- orðið til. 

Allt er þetta áhugavert umhugsunarefni. Að því kemur að slíkar myndir verða gerðar um sögulega atburði í okkar pólitísku sögu. Hrunið er slíkt söguefni. Hvernig verður það túlkað af kvikmyndagerðarmönnum framtíðarinnar?

Valdabaráttan í Sjálfstæðisflokknum, sem stóð í tæpan einn og hálfan áratug eftir lát Bjarna heitins Benediktssonar er slíkt myndefni. Hvernig kemur hún framtíðinni fyrir sjónir?

Hið sama má segja um vissa viðburði í kalda stríðinu.

En sama spurning vaknar alltaf:

Hvað er sögulega "rétt"?

Er til svar við þeirri spurningu?


Úr ýmsum áttum

4147 innlit í síðustu viku

Innlit á þessa síðu vikuna 17. janúar til 23. janúar voru 4147 skv. mælingum Google.

4433 innlit í síðustu viku

Innlit á þessa síðu vikuna 10. janúar til 16. janúar voru 4433 skv. mælingum Google.

4886 innlit í síðustu viku

Innlit á þessa síðu vikuna 3. janúar til 9. janúar voru 4886 skv. mælingum Google.

5133 innlit í síðustu viku

Innlit á þessa síðu vikuna 27. desember til 2. janúar voru 5133 skv. mælingum Google.