Hollenzk blaðakona, Caroline de Gruyter, segir frá því í grein, sem birt er á euobserver.eu, að skyndilega sýni leikhús um heim allan mikinn áhuga á leikriti eftir norska leikskáldið Henrik Ibsen, sem frumsýnt var árið 1882 eða fyrir nær 140 árum. Leikritið heitir Óvinur fólksins.
Í stuttu máli fjallar leikritið um lækni á heilsuhæli í litlum bæ í Noregi, en íbúarnir binda miklar vonir við að hælið verði þeim öllum til framdráttar efnahagslega. Læknirinn uppgötvar og fær staðfest að vatnið í bænum er eitrað, skrifar blaðagrein og boðar til fundar til þess að upplýsa um málið. Bróðir hans er bæjarstjórinn og sér glæsta efnahagslega framtíð bæjarins gufa upp. Hann hefur herferð til þess að eyðileggja orðspor bróður síns, læknisins, og fær ritstjóra blaðsins á staðnum til þess að hafna birtingu greinarinnar.
Eftir stendur læknirinn, rúinn trausti og dóttir hans rekin úr skólanum á staðnum, af því að hann vildi segja fólki sannleikann, þótt hann gæti haft neikvæðar efnahagslegar afleiðingar.
Þetta er í raun nákvæm lýsing á þeim átökum, sem nú fara fram á milli heilbrigðissjónarmiða og efnahagslegra hagsmuna vegna kórónuveirunnar.
Og kannski líka lýsing á hlutskipti þeirra, sem ganga einir gegn miklum hagsmunum.
Leikritið hefur verið sett á svið fjórum sinnum hér á landi. Fyrst hjá Leikfélagi Reykjavíkur árið 1908 og þá var heiti þess Þjóðníðingur. Næst hjá Þjóðleikhúsinu 1975 undir sama nafni. Í þriðja sinn hjá Leikfélagi Reykjavíkur á ný árið 2001 og þá undir nafninu Fjandmaður fólksins og loks hjá Þjóðleikhúsinu 2017 og þá undir nafninu Óvinur fólksins. Í þeirri sýningu var bróðirinn, bæjarstjórinn, orðinn að systur læknisins.
Það er nokkuð ljóst að þetta leikverk á erindi við samtíma okkar.
Innlit á þessa síðu vikuna 17. janúar til 23. janúar voru 4147 skv. mælingum Google.
Innlit á þessa síðu vikuna 10. janúar til 16. janúar voru 4433 skv. mælingum Google.
Innlit á þessa síðu vikuna 3. janúar til 9. janúar voru 4886 skv. mælingum Google.
Innlit á þessa síðu vikuna 27. desember til 2. janúar voru 5133 skv. mælingum Google.